Kóngur án hrings, en hve lengi?

Ég gerði heiðarlega tilraun til þess að skrifa blogg um hlutverk forseta sem öryggisventill, beint lýðræði, Icesave, tillögur stjórnlagaráðs og landið og miðin punktur is en svo áttaði ég mig á því að ég væri sennilega að fara að segja hluti sem ég sæi eftir, auk þess sem ég var orðinn andstuttur og rauður í framan.  Þess í stað hef ég ákveðið að ausa úr brunnum visku minnar um eina stóra málið sem veldur mér ekki einhverskonar pirringi, nefnilega NBA-úrslitakeppnina.  Áður en ég sný mér að því vildi ég samt segja að ef þér finnst eitthvað í upptalningunni að ofan „sniðugt“ þá getum við bara verið sammála um að vera ósammála 🙂 þ.e.a.s. þangað til þú hættir að vera fáviti.

Á tuttugu og fjögurra ára lífsleið minni hef ég borið taugar til þó nokkuð margra íþróttaliða í hinum ýmsu deildum, en Rivers/Pierce/KG/Ray/Rondo Boston Celticslið undanfarinna ára eiga eftir að eiga sérstakan stað í hjarta mér um ókomna tíð. Getgátur um hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir þá grænklæddu væri efni í langan pistil út af fyrir sig og ég er ekki beinlínis þekktur fyrir að dæla þeim út, þannig kannski er best að ég verði kjarnyrtur, ólíkt þessari málsgrein sem er of löng og kennslubókardæmi um slæm skrif.
Rondo er topp 10 leikmaður í NBA þegar hann hefur sjálfstraustið í lagi, Avery Bradley er með rosalegt upside, KG þarf að fá nýjan samning (10 milljónir á ári í 2 ár?), Paul Pierce á nóg eftir í tankinum því þetta old-man game hans er eins og vistakstur á Prius.  Ray Allen er líkast til á förum og ég leyfi mér að vona að Josh Smith fái tilboð ef það gerist. Væri sömuleiðis til í að resigna Keyon Dooling og Greg ‘Scooter’ Stiemsma ef þeir eru ekki búnir að margfalda verðmæti sitt í úrslitakeppninni.  Ég get ekki verið annað en stoltur af mínum mönnum fyrir 3 rimmur af eðal-körfubolta sem kórónaðist á eldskírn fyrir LeBron James sem fékk sannarlega að finna til tevatnsins og varð að setja í gírinn sem Guð gaf honum einum í síðustu 2 leikjunum, eftir að Paul Pierce stakk hann í hjartað með rýtingi í leik 5.

Frammistaða LeBron í leiknum sem fylgdi þessum þristi sýnir hversu mikið hann hefur þroskast sem leikmaður.  Nítján af 24 skotum ásamt 15 fráköstum í TD Garden er frammistaða sem hæfir manni sem menn titla sem kóng.  Svo færðust leikar suður á bóginn þar sem staðan var 73-73 eftir 3 leikhluta í oddaleik.  Boston sem státa sig af varnarleik sínum, og það með réttu, gátu ekki haldið LeBron utan vítateigsins þar sem hann er banvænastur.  Svo tókst þeim það loksins og þá gerðist þetta:

Sem Bostonaðdáandi dóu vonir mínar um öskubuskuferð í Finals með þessu skoti.  Sem körfuboltaaðdáandi hlakkaði strax í mér.  Kóngurinn hringlausi í sinni 3. ferð í Finals er á skriði eins og aldrei fyrr en er samt 2:3 underdog á flestum veðbönkum til að vinna í ár.  Ég geri mér grein fyrir því að ég hef ekki fjallað neitt um OKC.  Ekki misskilja mig, ég elska skeggið á James Harden jafn mikið og næsti maður, en ég er að reyna að lenda þessari elsku áður en leikurin byrjar eftir rúman klukkutíma og ég er orðinn svangur.  Í stuttu máli, og ég verð að fá að sletta:  Þetta verður glorified playground bolti með frekar meðalgóðum þjálfurum og 5 af 10 bestu, þar af 3 af 5 bestu sóknarmönnum í heimi í dag. Skemmtanagildið fyrir hinn almenna aðdáanda verður út í hött mikið. Ég viðurkenni fúslega að ég var að vonast eftir skákkeppni milli Doc Rivers og Gregg Popovich, en ég viðurkenni líka að þetta er það næst besta í stöðunni.

Þetta eru bara getgátur.  LeBron James og co. eru epli, Durant, Westbrook og Harden eru appelsínur.  En það er eitthvað sem segir mér að LeBron sé tilbúinn að notfæra sér það að hann hefur verið í þessari stöðu áður, ólíkt jafnöldrum mínum í OKC, notfæra sér innblásturinn sem “good job, good effort” krakkinn virðist hafa veitt honum og spila besta körfubolta lífs síns í nokkra leiki í viðbót. Þó það væri nú ekki nema bara vegna þess að það eru allir uppiskroppa með choke-brandara um hann.  Annars vona ég að körfuboltaaðdáendur nær og fjær njóti vel.  Framtíðin er núna.  Áfram nýi skólinn.  Love, BAD

Ef LeBron er kóngur í raun – þá þarf hann að eigna sér þessa höll.

P.s. ætli Harden raki sig ef þeir vinna?  Og hvort er það ástæða til að halda með Miami eða OKC?

Comments
One Response to “Kóngur án hrings, en hve lengi?”
  1. Harden says:

    Ef það er eitthvað til í síðustu setningunni þá held ég með Miami. Það er mikilvægara að Harden verði áfram jafn nettur heldur en að draslið eignist hring.

Leave a comment